top of page

Myndlistarsýning til heiðurs Billu

Föstudaginn, 10. nóvember var haldin myndlistarsýning í Deiglunni og Mjólkurbúðinni á Akureyri.

Sýningin var einstök en verkin sem voru til sýnis eru öll verk áhugahóps myndlistarfólks sem allt á það sameiginlegt að hafa sótt námskeiðið „Fræðsla í formi og lit“  hjá myndlistarkonunni Bryndísi Arnardóttur sem lést fyrir aldur fram árið 2022.

Myndlistarhópurinn Gellur sem mála í bílskúr varð einmitt til í framhaldi af einu námskeiðanna hjá Billu og kom sú hugmynd upp hjá hópnum að setja upp myndlistarsýningu í minningu hennar og fá einnig til liðs fleiri nemendur Billu. Alls voru rúmlega 30 manns með myndir á sýningunni.

Billa var menntaður myndlistarmaður og með meistaragráðu í kennslufræðum listgreina. Hún stofnaði m.a. Listfræðsluna, myndlistarskóla fyrir almenning og var frumkvöðull í að fá viðurkenningu á einingarbæru myndlistarnámi með námskeiðinu. 

Listrænn stjórnandi sýningarinnar var Guðmundur Ármann myndlistarmaður en Billa og Guðmundur Ármann voru samstarfsfélagar og vinir og áttu m.a. stóran þátt í að byggja upp öfluga myndlistardeild við Verkmenntaskólann á Akureyri auk þess sem mikill fjöldi áhugafólks um myndlist hefur sótt hjá þeim námskeið í gegnum tíðina.

Sýningin stóð yfir dagana 10. – 12. nóvember. Norðurorka og KEA studdu við uppsetningu sýningarinnar.

Hér má sjá frétt frá heimsókn Forseta Íslands https://www.forseti.is/gellursemmala

Aðstandendur Billu hafa stofnað Minningarsjóð Bryndísar Arnardóttur og rann helmingur söluandvirðis myndanna á sýningunni í hann. Helmingur söluandvirðis myndanna á þessari síðu munu einnig renna í sjóðinn.  

Fjármunum sjóðsins skal varið til að styrkja konur á sviði sjónlista.

Með því að fara á síðuna Listaverk má sjá og kaupa verk af sýningunni

Hópurinn með forseta Íslands.
Mikið líf var þegar að sýningin til heiðurs Billu opnaði.
Þetta er hún Billa okkar.
bottom of page